Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vigfús Thorarensen (Sigurðsson)

(4. maí 1815–16. júlí 1854)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Sigurður Thorarensen í Hraungerði og f.k. hans Guðrún Vigfúsdóttir sýslumanns að Hlíðarenda, Þórarinssonar. Var 1 ár í Bessastaðaskóla, síðan skrifari hjá Jóhanni sýslumanni Árnasyni í Rangárþingi. Fór utan 1836, tók próf í dönskum lögum 13. maí 1839, en með því að hann hlaut þá 2. einkunn í bóklegu, tók hann það um aftur 14. maí 1840, með 1. einkunn í báðum prófum. Varð síðan skrifari hjá Páli sýslumanni í Hjálmholti Melsteð, síðar amtmanni, fekk Þykkvabæjarklaustur 1842; bjó á Ketilsstöðum í Mýrdal, sleppti umboðinu 1847, settur sýslumaður í Strandasýslu 19. maí 1849, fekk sýsluna 30. apr. 1854, bjó á Borðeyri.

Kona (7. jan. 1841): Ragnheiður (f. 18. júlí 1816, d. 9. febr. 1914) Pálsdóttir amtmanns Melsteðs.

Börn þeirra, sem upp komust: Guðrún átti fyrst tvíbura með Nikulási NIugasyni, og dóu þeir ungir, giftist síðan fyrr Guðna í Forsæti Magnússyni (prests að Eyvindarhólum, Torfasonar), síðar Kristjáni að Forsæti (síðar í Rv.), launsyni Þorsteins stúdents og kaupmanns í Rv., Jónssonar (Kúlds), Bjarni Páll skipstjóri í Stykkishólmi, Anna Sigríður átti Pétur bæjarféhirði Pétursson í Rv., Ingibjörg átti Guðna Þorteinsson að Hóli í Landeyjum, Steinunn átti Einar Gestsson að Hæli í Gnúpverjahreppi, Stefanía óg., Sigríður óg., Oddgeir trésmiður, Vigfúsína átti Marís kaupmann Marísson Gilsfjörð á Ísafirði (BB. Sýsl.; Tímarit bmf. 1882).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.