Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vigfús Reykdal

(5. ág. 1783–6. mars 1862)

Prestur.

Foreldrar: Síra Eiríkur Vigfússon í Stafholti og kona hans Sigríður Jónsdóttir byskups, Teitssonar. FF, í Reykholti. Nam skólalærdóm hjá síra Bjarna Arngrímssyni á Melum, stúdent 12. maí 1802 úr heimaskóla frá Geir byskupi Vídalín. Var síðan hjá foreldrum sínum, reri vetrarvertíðina 1806 í Njarðvíkum hjá Árna Teitssyni, flæktist saklaus í óþverramál hans, en var sýknaður í landsyfirdómi.

Vígðist 19. okt. 1806 aðstoðarprestur föður síns, fekk Hvanneyri 2. júní 1807, vegnaði þar mjög illa, varð 1812 aðstoðarprestur síra Eggerts Eiríkssonar í Glaumbæ, bjó á Halldórsstöðum, fekk Hvamm í Laxárdal 1814, missti þar prestskap 1822, vegna barneignarbrots í milli kvenna, fekk uppreisn 3. sept. 1823 og leyfi til að halda sama prestakalli, fekk Hof á Skagaströnd 16. mars 1827, í skiptum við síra Björn Arnórsson, Möðruvallaklaustursprestakall 5. nóv. 1833, bjó þar að Auðbrekku, fekk Höskuldsstaði 13. nóv. 1838, Miðdalaþing 14. okt. 1843, Gufudal 1856, en fór þangað ekki og fekk leyfi til að vera kyrr, lét af prestskap 1859.

Í Miðdalaþingum bjó hann 1 ár að Sauðafelli, 6 ár í Snóksdal, en að Hörðubóli frá 1851 til æviloka. Talinn góður ræðumaður og skáldmæltur (sjá Lbs.), en átti við erfiða hagi að búa lengi, enda nokkuð óstöðugur og drykkfelldur.

Kona 1 (13. nóv. 1806): Arnbjörg (f. um 1781, d. 26. okt. 1841) Jónsdóttir bókbindara, Gottskálkssonar. Hún varð geðveik og skildu þau með konungsleyfi 13. okt. 1820.

Sonur þeirra: Eiríkur í Belgsholtskoti og Áskoti í Melasveit.

Kona 2 (5. ág. 1824): Salbjörg (f. um 1802, d. 29. sept. 1873) Jónsdóttir á Breiðsstöðum, Jónssonar.

Dætur þeirra, sem upp komust: Katrín átti Jón Jónsson að Hörðubóli, Sigríður átti Guðmund Björnsson að Hörðubóli, Solveig Ásta átti Jón yngra Jónsson í Litlu Gröf, Ragnheið„ur átti Hjört Ögmundsson í Öxney. Launsonur síra Vigfúsar (með Sigríði Gunnarsdóttur á Skíðastöðum, Guðmundssonar, er var bústýra hans og eigi vildi giftast honum, er til kom): Vigfús í Utanverðunesi (Vitæ ord.; HÞ... SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.