Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vigfús Helgason

(17. öld)

Prestur.

Foreldrar: Helgi Vigfússon á Hvítárvöllum og kona hans Þuríður Ásgeirsdóttir prests að Lundi, Hákonarsonar.

Er orðinn prestur í Breiðavíkurþingum eigi síðar en 1622 og hélt til 1669, er hann lét af prestskap. Bjó þar fyrst að Laugarbrekku, síðar að Litla Kambi, síðast í Brekkubæ. Hann er enn á lífi 23. júní 1674 og á þá heima að Lundum í Stafholtstungum. Við hann er líkl. bundin sú sögn (fremur en síra Vigfús Ísleifsson að Setbergi), að hann hafi í víneklu haft brennivín í stað messuvíns í kaleiknum, og hafi kerling, er til altaris var, mælt: „Beiskur ertú nú, drottinn minn!“ Er þetta talið hafa verið 1638 og að hann hafi þá í bili misst prestakallið.

Kona: Halldóra Nikulásdóttir lögréttumanns í Brekkubæ, Oddssonar.

Börn þeirra: Helgi að Lundum, síðar í Þrengslabúð, Árni að Heydalsá í Steingrímsfirði, Guðný f. k. Skafta Torfasonar að Laugarbrekku, Guðmundur ringlaðist á geðsmunum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.