Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vigfús Gíslason

(1608–14. apr. 1647)

Sýslumaður.

Foreldrar: Gísli lögmaður Hákonarson og kona hans Margrét Jónsdóttir prests í Görðum á Álptanesi, Krákssonar. Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 1624, fór utan s.á., líklega fyrst til Hollands, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 6. apr. 1625. Í ísl. ritum er þess getið, að hann hafi orðið baccalaureus, og má það vera, þótt eigi sé þess getið í prófbókum háskólans. Kom aftur til landsins 1628, var rektor í Hólaskóla 1628–30, en í Skálholtsskóla 1630–2. Hann hefir staðið reikningsskap (í lénsreikningum í þjóðskjalasafni) af Kjósarsýslu í umboði föður síns 1627–30 og af Rangárþingi eftir lát hans 1630–1. Hann keppti um byskupsstólinn í Skálholti í móti Gísla Oddssyni. Hófust eftir það deilur með þeim Oddssonum, einkum Árna lögmanni og honum, mest vegna ábúðar og kúgilda á fáeinum jörðum stólsins í Árnesþingi. Þeim var þröngvað til sætta 3. ág. 1636.

Vigfús varð sýslumaður í Árnesþingi og Vestmannaeyjum 1632, var utanlands veturinn 1633–4 og mun þá hafa verið heldur óþarfur þeim Oddssonum. Missti sýslur sínar 1634, með því að hann vildi ekki vinna sýslumannseið fyrir Jens Söfrensen, fekk þær aftur og þar með Rangárþing 1636, en hafði lögsagnara til þess að gegna þeim, þar á meðal Hákon, bróður sinn, og við hann sleppti hann Rangárþingi 1645, en hélt Árnesþingi til æviloka. Hann þókti mjög kröfuharður í kennslu, en er þó í góðum heimildum talinn valmenni og höfðingi. Maður skarpvitur og talinn hinn lærðasti. Var latínuskáld (kvæði í Gerhards hugvekjum, Hól. 1630). Hefir samið ritgerð á latínu um hjónabönd (er í bréfabókum Brynjólfs byskups Sveinssonar). Bjó fyrst í Bræðratungu frá 1631, en síðar (líkl. frá 1640) að Stórólfshvoli, andaðist á ferðalagi, á Seljalandi undir Eyjafjöllum.

Kona (1635). Katrín (f. 1612, d. 12. mars 1693) Erlendsdóttir sýslumanns að Stórólfshvoli, Ásmundssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Gísli rektor og magister, Jón eldri sýslumaður í Árnesþingi, Jón yngri Hólabyskup, Salvör átti síra Sæmund Oddsson í Hítardal, Þorbjörg átti Gísla Skálholtsráðsmann Sigurðsson (Saga Ísl. V; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.