Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vigfús Erlendsson

(– – 1521)

Lögmaður sunnan og austan 1513–20 og líkl. um land allt 1517.

Foreldrar: Erlendur sýslumaður Erlendsson í Rangárþingi og kona hans Guðríður Þorvarðsdóttir á Möðruvöllum, Loptssonar ríka.

Hefir fengið Rangárþing 1505, var hirðstjóri 1507–9. Fór utan 1520 og hugðist að ná aftur hirðstjórn, en andaðist í þeirri för. Læknir góður, mikilhæfur maður, bráðlyndur og þó vinsæll. Bjó að Hlíðarenda.

Kona 1: Guðrún Pálsdóttir sýslumanns að Skarði á Skarðsströnd, Jónssonar.

Börn þeirra: Páll lögmaður að Hlíðarenda, Guðríður átti Sæmund ríka Eiríksson að Ási í Holtum, Anna átti Hjalta Magnússon í Teigi.

Kona 2: Salgerður Snjólfsdóttir (Rafnssonar). Var hjónaband þeirra dæmt ógilt vegna sifjaspella, og er ekki ætt frá þeim.

Laundætur Vigfúsar eru taldar: Guðrún átti fyrr Pál Tómasson, síðar Pál Eyjólfsson á Hjalla, Ingveldur átti Jón nokkurn. Launsonur hans kann að hafa verið síra Gizur í Vestmannaeyjum (Dipl. Isl.; Safn 11; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.