Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vernharður Guðmundsson

(um 1713–19. apr. 1798)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Vernharðsson í Selárdal og kona hans Margrét Arngrímsdóttir í Sælingsdalstungu, Jónssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1730, stúdent 1734. Vígðist líklega 11. okt. 1744 til að þjóna Laugardalssókn í Tálknafirði, fyrir bróður sinn, síra Þorlák í Selárdal, fekk Otrardal 1756 og hélt til æviloka.

Í skýrslum Harboes fær hann mjög góðan vitnisburð. Hann var málhaltur a.m.k. framan af ævi, og hefur líklega af því orðið til heldur ljót þjóðsaga um hann (DN. Prest.). Hann var latínuskáld (orkti eftir Eggert Ólafsson). Eftir hann er þýðing Vikubæna Herslebs (sjá Lbs.).

Kona 1: Guðrún (d. 1784) Jónsdóttir skipasmiðs á Suðureyri, Guðmundssonar.

Dætur þeirra: Ólöf átti H. Ch. Brynning verzlunarstjóra í Rv., Guðbjörg átti síra Þorkel Guðnason á Stað í Hrútafirði, Ingibjörg átti síra Guðmund Sigurðsson á Stað í Aðalvík.

Kona 2 (1786). Sigríður (f. um 1762, d. 1. mars 1831) Þórðardóttir á Sveinseyri í Tálknafirði, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust Guðrún átti síra Runólf Erlendsson að Brjánslæk, Guðmundur að Hóli í Bíldudal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.