Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Torfi Árnason

(1773–17. febr. 1851)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Árni Torfason á Löndum í Stöðvarfirði og kona hans Guðlaug Sigurðardóttir prests í Heydölum, Sveinssonar. Var í fóstri og lærði hjá móðurbróður sínum, síra Gísla Sigurðssyni í Heydölum, tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1794, stúdent 12. júní 1797. Var um hríð í þjónustu Stefáns amtmanns Stephensens, missti réttindi til prestskapar vegna barneignar um 1798 og mun aldrei hafa sókt um uppreisn. Var söngmaður góður. Bjó lengi á Mófeldsstöðum í Skorradal og andaðist þar.

Kona 1: Þórunn Magnúsdóttir á Indriðastöðum, Árnasonar; þau bl.

Kona 2: Ólöf (d. 5. júlí 1848, 71 árs) Jónsdóttir í Hvítárvallakoti, Guðlaugssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Þórunn átti Sigurð Sigurðsson (aðstoðarprests, Þorbjörnssonar) á Mófeldsstöðum, en þau flosnuðu upp og fóru á Kolbeinsstaðahrepp 1855, Kristín óg. og bl., Árni dó úr holdsveiki, ókv. og bl., Þórður í Vigfúsarkoti í Reykjavík. Launsonur Torfa stúdents (með Solveigu Steinólfsdóttur á Svíra, Jónssonar): Einar d. 1860, húsmaður á Mófeldsstöðum, þá talinn 62 ára (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.