Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Teitur Torfason

(– – 28. dec. 1668)

Skálholtsráðsmaður.

Foreldrar: Síra Torfi Snæbjarnarson á Kirkjubóli og kona hans Helga Guðmundsdóttir prests á Staðastað, Einarssonar. Mun hafa lært í Skálholtsskóla, fór utan 1648, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. dec. s.á., var þar 6 ár og mun hafa orðið baccalaureus (þótt háskólaskýrslur nefni það eigi) og attestatus, hefir fyrst verið hjá föður sínum. Átti barn í lausaleik 1656 með Guðrúnu Þorleifsdóttur, systkinabarni sínu, fór því utan 1657 og fekk uppreisn 3. júní 1658. Mun hafa komið aftur til landsins 1660.

Ef það er rétt, sem góð heimild (Hannes byskup Finnsson) hermir, að hann hafi verið heyrari í latínuskóla í Lundi, hlýtur það að hafa verið eftir að hann fór utan í síðara sinn.

Fekk uppreisn fyrir annað barneignarbrot 19. mars 1662. Var Skálholtsráðsmaður frá 1663 til æviloka, bjó í Hjálmholti frá 1667. Hann var hið mesta hraustmenni, drengskaparmaður og naut mikillar hylli Brynjólfs byskups. Hann orkti bæði á íslenzku og latínu (sjá Lbs.).

Kona: Helga Jónsdóttir prests og skálds í Vatnsfirði, Arasonar; þau bl. Hún tók að sér launson Teits (víst þann, er hann átti í síðara sinn, við Guðríði Vigfúsdóttur), Sigurð, kom honum í Hólaskóla, en hann fór síðan til Hollands og kom ekki aftur (HÞ.; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.