Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Símon Sveinbjarnarson

(1739–25. mars 1767)

Prestur.

Foreldrar: Sveinbjörn Eiríksson í Krýsuvík og kona hans Hallbera Jónsdóttir (Sigmundssonar?).

Tekinn í Skálholtsskóla 1755, stúdent 23. maí 1761, lærði síðan 2 ár læknisfræði hjá Bjarna landlækni Pálssyni, hætti við það, vígðist 6. nóv. 1763 aðstoðarprestur síra Jóns Magnússonar í Selvogsþingum, bjó í Krýsuvík, þjónaði þeirri sókn og hafði allar tekjur af henni. Var ókv., en látnum kenndi Ásdís Jónsdóttir á Kröggólfsstöðum, Eyjólfssonar, honum dóttur, Guðrúnu (Símon Sighvatsson í Krýsuvík var talinn eins líklegur til að vera faðir hennar, en hann sór fyrir allar samfarir við Ásdísi), og sór Ásdís Guðrúnu upp á síra Símon látinn. Anna Högnadóttir frá Laugarvatni, Björnssonar, ekkja Símonar Sighvatssonar, arfleiddi Guðrúnu að öllum eignum sínum, fluttist til hennar og dó hjá henni, en Guðrún átti Vernharð lögréttumann Gunnarsson að Laugarvatni (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.