Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sæmundur Magnússon

(1690–11. apr. 1747)

Prestur. For€ldrar hans: Magnús bóndi Sigurðsson í Bræðratungu og kona hans Þórdís Jónsdóttir Hólabyskups, Vigfússonar. Ólst upp hjá móðurbróður sínum, síra Þórði á Staðastað, lærði í Skálholtsskóla, stúdent 21. apr. 1709, vígðist 29. nóv. 1713 að Hofstaðaþingum, fekk Fagranes 14. júní 1723, Miklabæ 13. mars 1731 og hélt til æviloka.

Var prófastur í Hegranesþingi frá 24. okt. 1729 einnig til æviloka, var stundum í yfirreiðum fyrir Stein byskup á efri árum hans, vígði nokkura presta, meðan byskupslaust var nyrðra. Í skýrslum Harboes fær hann heldur lélegan vitnisburð, að öðru en því, að hann sé vel gefinn maður; olli þessu drykkfeldni. Hann var karlmenni að burðum, hestamaður og glaðlyndur.

Kona (1717): Guðrún (d. 1746) Þorsteinsdóttir lögréttumanns á Flugumýri, Steingrímssonar.

Börn þeirra: Síra Magnús á Þingvöllum, Jarþrúður eldri óg., Jarþrúður yngri átti Torfa Gíslason að Meðalfelli í Kjós, Helga átti Jón smið Henriksson á Torfastöðum í Grafningi, Margrét s.k. síra Vigfúsar Jónssonar í Hítardal, Þorsteinn óg. og bl., Oddur á Atlastöðum í Svarfaðardal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.