Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sæbjörn Egilsson

(22. sept. 1837 – 11. febr. 1894)

. Bóndi.

Foreldrar: Egill Árnason í Hvannstóði í Borgarfirði eystra og kona hans Þuríður, dóttir Latínu-Magnúsar Jónssonar.

Bóndi á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal 1870–94. Mikill búhöldur og meðal forgöngumanna í félags- og framfaramálum héraðs síns. Gáfumaður, víðlesinn og vel menntur. Ritaði á yngri árum nokkrar frásagnir, er birtust í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Á síðari árum ritaði hann mikið í blöð; hélt og dagbók mjög greinargóða um almenna viðburði. Kona 1: Hólmfríður (d. 1874) Jónsdóttir, ekkja Jóns Sigurðssonar á Hrafnkelsstöðum. Einbirni þeirra: Magnús læknir í Flatey. Kona 2: Hallfríður Einarsdóttir á Skeggjastöðum, Jónssonar vefara, Þorsteinssonar; þau bl. (Nýjar Kvöldvökur 1947 o.fl.) (H.St.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.