Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sveinn Símonarson

(um 1559–10. dec. 1644)

Prestur.

Foreldrar: Síra Símon Jónsson í Kálfholti (og Hruna) og kona hans Halla Bjarnadóttir, Þorleifssonar. Vígðist 1578 kirkjuprestur að Skálholti, fekk Holt í Önundarfirði 1582 og hélt að nafni til að ævilokum. Varð prófestur í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1583, lét af því starfi 1632. Hann þókti fyrir öðrum prestum á þeirri tíð. Þýddi Speculum amicitiæ eftir S. Svevus, Hól. 1618.

Í Lbs. er eftir hann í handritum: Oeconomia christiana, Veðurmerki eftir J. Camerarius(?), predikanir B. Meissners. Hann var og hagmæltur (sjá Lbs.).

Skjalabók hans er í AM., skjalauppskriftir í Lbs.

Kona 1: Þórunn, laundóttir Björns Hannessonar, Eggertssonar.

Börn þeirra: Síra Jón í Holti í Önundarfirði, Björn járnsmiður á Þórustöðum í Önundarfirði, Þorleifur í Hjarðardal innra, Páll bartskeri, d. í Kh. 32 ára, Þórunn f. k. Jóns eldra Böðvarssonar í Nesþingum.

Kona 2 (14. sept. 1600). Ragnheiður (d. 19. nóv. 1636) Pálsdóttir sýslumanns að Reykhólum (Staðarhóls-Páls), Jónssonar, ekkja Gizurar sýslumanns að Núpi í Dýrafirði, Þorlákssonar.

Synir þeirra síra Sveins: Síra Gizur á Álptamýri, Brynjólfur byskup (PEÓl. Mm.; Saga Ísl. IV; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.