Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sveinn Níelsson

(í ágúst [19. nóv., Bessastsk. og Vita] 1801–17. jan. 1881)

Prestur.

Foreldrar: Níels Sveinsson að Kleifum í Gilsfirði og kona hans Sesselja Jónsdóttir að Barmi á Skarðsströnd, Guðmundssonar. Var misserisgamall tekinn í fóstur af móðurbróður sínum, Jóni hreppstjóra Jónssyni í Snartartungu, lærði fyrst 2 vetur hjá síra Friðrik Jónssyni á Stað á Reykjanesi, tekinn í Bessastaðaskóla 1820, stúdent 1824, með mjög góðum vitnisburði, síðan 2 ár kennari og skrifari hjá Birni sýslumanni Blöndal í Hvammi í Vatnsdal, því næst hjá síra Jóni Jónssyni í Stærra Árskógi, síðar á Grenjaðarstöðum, varð 4. júní 1828 djákn á Grenjaðarstöðum og bjó í Klömbur, fekk Blöndudalshóla 23. jan. 1835, vígðist 8. júní s. á., Staðarbakka 4. dec. 1843, Staðastað 30. maí 1850, lét þar af prestskap 1874 og fluttist til Reykjavíkur, en fekk Hallormsstað 21. mars 1879, lét þar af prestskap haustið 1880, fluttist þá aftur til Rv. og andaðist þar.

Prófastur í Snæfellsnessýslu 1866–74, 2. þjóðfundarfulltrúi Húnvetninga 1851, þm. Snæfellinga 1865–7. Hann var í röð fremstu kennimanna, gáfumaður mikill og skáldmæltur (sjá Lbs.), smiður góður, orðlagður kennari og kenndi mörgum nemöndum undir skóla. Pr. er eftir hann: Um ljáasmíði (í Ármanni á alþingi); Prestatal og prófasta, Kh. 1869; Útfm. síra Jóns Þorsteinssonar (í Reykjahlíð), Rv. 1879.

Kona 1 (21. ág. 1827): Guðný skáldkona (d. 11. júní 1836) Jónsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Jónssonar; þau skildu.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón Aðalsteinn adjunkt í Nyköbing, Sigríður átti Níels trésmið Eyjólfsson á Grímsstöðum á Mýrum.

Kona 2 (1836): Guðrún (f. 27. mars 1807, d. 10. júní 1873) Jónsdóttir prests í Steinnesi, Péturssonar.

Börn þeirra: Elísabet Guðný átti Björn ritstjóra og ráðherra Jónsson, Hallgrímur byskup, Jón á Selvelli í Breiðavík, Sveinn trésmiður í Rv. (Bessastsk.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.