Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steinvör Sighvatsdóttir

(– – fyrir 1271)

Dóttir Sighvats Sturlusonar (sjá ætt þar). M.: Hálfdan að Keldum Sæmundsson í Odda, Jónssonar.

Börn þeirra: Sighvatur riddari að Keldum, Sturla, Loptur riddari á Grund, Solveig átti Þorvarð Þórarinsson, Svanhildur átti Árna Jónsson í Skipholti. Hún var hinn mesti kvenskörungur á sinni tíð. Er það til marks, að hún var gerðarmaður í deilum Þórðar kakala, bróður síns, við Sigvarð byskup Þéttmarsson og Árnesinga, og að Þórður fal henni og manni hennar ríki sitt og búsforstöðu á Grund í Eyjafirði, er hann fór utan (1246). Eftir lát hans kallaði Steinvör og til ríkis hans og fal það dótturmanni sínum, Þorvarði Þórarinssyni (Sturl.; Dipl. Isl.; Ob. Isl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.