Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steinn Jónsson

(30. ág. 1660–3. dec. 1739)

Byskup.

Foreldrar: Síra Jón skáld Þorgeirsson á Hjaltabakka og kona hans Guðrún Steingrímsdóttir. Tekinn í Hólaskóla 1678, stúdent 1683, var síðan í þjónustu Solveigar Magnúsdóttur (lögmanns, Björnssonar) að Hólum í Eyjafirði, fór utan 1686, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 7. sept. s.á., varð attestatus í guðfræði, kom til landsins 1688, varð þá millibilsprestur í Hítardal, kirkjuprestur í Skálholti 1692, fekk Hítarnes 1693, Setberg 1699, kvaddur utan til að taka við Hólabyskupsdæmi 1710, fekk veiting fyrir því 25. maí 1711, vígðist á trinitatis s. á., kom til landsins samsumars og sat að Setbergi um veturinn, tók við Hólastól 1712 og hélt til æviloka. Var vel gefinn maður og skáldmæltur, einnig á latínu (sjá Lbs. og pr. rit), valmenni, en eigi skörungur mikill. Mikill vexti og rammur að afli. Eftir hann er prentað: Dægrastytting (Hól. 1719, 1727, 1757); Upprisusálmar (Psalterium triumphale), Hól. 1726, oft pr. eftir það, síðast í Viðey 1834.

Sá um prentun biblíunnar, Hól. 1728. Þýðingar pr.: Anthropologia sacra eftir Jóh. Lassenius, Hól. 1716; Tvennar sjö sinnum sjö hugvekjur eftir sama, Hól. 1723; Guðrækilegar vikubænir eftir sama, Hól. 1728, 1733, 1800. (Tvennar vikubænir), 1853 (Bæna- og sálmakver); Tárapressa eftir J. R. Rachlöv, Hól. 1719 (sjá Jón Þork. Vídalín: Sjö predikanir, Hól. 1722); Mánaðasöngur eftir Joh. Obarius, Hól. 1727; vikusálmar eftir sama (aftan við rím Þórðar byskups, Skál. 1692). Sálmar eftir hann eru í sálmabókum.

Varðveittar eru eftir hann prestastefnubók, visitazíubók, en einungis 1 bindi (ekki heilt) af bréfabókum hans. Kvæði pr. eftir hann er í Ísl. gátur, skemmt. o. s. frv. MI.

Kona (1694): Valgerður (f. 1668, d. 12. febr. 1751) Jónsdóttir prests að Staðarhrauni, Guðmundssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón Bergmann stúdent, læknir og skáld, Guðmundur rektor, Sigfús, Jórunn átti fyrst Hannes sýslumann Scheving, síðar síra Stefán Einarsson að Laufási, Helga átti fyrst Jón sýslumann Vídalín (Pálsson), síðan launbarn með Jóni stúdent Marteinssyni, giftist síðan Einari ráðsmanni Jónssyni í Viðvík (Úfm., Hól. 1741; Saga Ísl. VI; JH. Bps. Il; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.