Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steinmóður Bárðarson

(– – 1481)

Ábóti í Viðey, officialis í Skálholtsbyskupsdæmi. Faðir: Bárður Njálsson prests að Kálfafelli, Bárðarsonar. Er djákn nyrðra 1423, hefir verið handgenginn Jóni byskupi Vilhjálmssyni og prestur nyrðra til 1440, eftir það í Skálholts byskupsdæmi. Varð ábóti í Viðey 1444 og síðan til æviloka.

Oft nefndur í skjölum officialis í Skálholtsbyskupsdæmi. Dugandi maður og harðskeyttur.

Skömmu fyrir 1480 átti hann bardaga við útlendinga í Hafnarfirði, og féll þar Snjólfur sonur hans. Aðrir synir hans eru taldir; Bárður, Þorvarður, Jón, Hjalti (Dipl. Isl.; Safn I; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.