Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steingrímur Jónsson

(14. sept. 1769–14. júní 1845)

Byskup.

Foreldrar: Síra Jón Jónsson í Holti undir Eyjafjöllum og kona hans Helga Steingrímsdóttir að Þverá í Blönduhlíð, Jónssonar.

F. á Mýrum í Álptaveri. Lærði fyrst hjá föður sínum, tekinn í Skálholtsskóla 1782, lærði síðan hjá ýmsum utanskóla, tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1786, stúdent 31. maí 1788, var næstu 2 ár hjá foreldrum sínum, en frá 1790 skrifari Hannesar byskups Finnssonar og kenndi eftir lát hans sonum hans og fleiri nemöndum í Skálholti, fór utan 1800, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 7. nóv. s. á., með 1. einkunn, tók annað lærdómspróf 6. maí og "7. okt. 1801, með 1. einkunn, guðfræðapróf 13. júlí 1803, með ágætiseinkunn, varð síðan styrkþegi í Árnasafni og skrifari (launalaus) í kanzellíi, þýddi þá á latínu Gulaþingslög fyrir Grím Thorkelín, kom snöggvast til landsins 1804, varð 17. maí 1805 lektor í Bessastaðaskóla, fekk Odda 16. febr. 1810, vígðist 21. apr. 1811 og fluttist þá þangað, varð prófastur í Rangárþingi 1812, skipaður byskup 12. maí 1824, vígðist 26. dec. s. á., kom til landsins í maí 1825, tók við byskupsembætti 14. júní s.á., var fyrsta árið í Rv., en síðan í Laugarnesi til æviloka. R. af dbr. 1. nóv. 1828, dbrm. 28. okt. 1836, k. af dbr. 10. júní 1841, heiðursforseti 1840 í „La societé genérale des naufrages“, r. af frakkn. heiðursfylk. 1844, heiðursfél. í bmf. 1839, sat í embættismannanefndinni 1839 og 1841, kvaddur 23. sept. 1843 til að vera kkj. þm., en andaðist áður en hið fyrsta alþingi kæmi saman. Hann var manna bezt að sér, kenndi mörgum skólalærdóm, meðan hann var prestur, og veitti sumum stúdentsvottorð. Einn hinn skylduræknasti embættismaður og valmenni, hagmæltur (sjá Lbs.) og hinn fróðasti á sögu Íslands og ættvísi, og hefir skrifað ýmislegt, sem er í handritum um þau efni, þar á meðal ættartölubók mikla.

Allt handritasafn hans er í Lbs.

Pr. er eftir hann: Ævis. Jóns Jónssonar Thorkelsens, Kh. 1825 (á dönsku í Rípum 1829); ræða í útfm. síra Gunnlaugs Oddssonar, Kh. 1836; þýðing á bréfi Páls postula til Rómverja í Nýja testamenti, Viðey 1826.

Kona (2. júlí 1806): Valgerður (f. 14. dec. 1771, d. 17. maí 1856) Jónsdóttir sýslumanns á Móeiðarhvoli, Jónssonar, ekkja Hannesar byskups Finnssonar.

Sonur þeirra: Hannes Johnsen kaupmaður í Reykjavík (Vitæ ord.; Ræður, Rv. 1847; Útfm., Rv. 1880; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.