Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steindór Helgason

(um 1683–1766)

Sýslumaður.

Foreldrar: Helgi Ögmundsson í Akureyjum og kona hans Guðrún Steindórsdóttir í Vatnabúðum, Daðasonar. Varð lögsagnari Odds lögmanns Sigurðssonar í Snæfellsnessýslu 1714. Settur sýslumaður í Hnappadalssýslu 1727, fekk hana að veitingu 1728, lét af sýslustörfum 1755, fekk ári síðar eftirlaun, 16 rd. árlega. Karlmenni að burðum, allvel viti borinn, en lítt lærður, einarður, sæmilega efnum búinn, nokkuð hneigður til drykkju. Bjó víða (á Hofstöðum, í Straumfjarðartungu, á Kolbeinsstöðum, í Hróksholti).

Fluttist 1755 vestur í Rif.

Kona 1: Ingibjörg Helgadóttir í Þrengslabúð, Vigfússonar prests, Helgasonar.

Börn þeirra: Helgi að Hellnafelli, Guðrún átti Brand Eiríksson að Hólahólum.

Kona 2 (1727). Helga Jónsdóttir lögréttumanns, Illugasonar að Munaðarhóli; þau bl.

Kona 3: Margrét (d. 1766) Jónsdóttir prests „brúnklukku“ í Garpsdal, Jónssonar; þau bl. Launsonur Steindórs (með Sigríði Þórðardóttur): Jón (BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.