Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Steindór Gíslason

(– – 1668)

Sýslumaður.

Foreldrar: Gísli lögmaður Þórðarson og kona hans Ingibjörg Árnadóttir sýslumanns að Hlíðarenda, Gíslasonar. Hann lærði í Skálholtsskóla, þókti námsmaður ágætur, lærður vel og vitur, en hneigðist mjög til drykkju, og háði það frama hans. Hann var ÞES og utanlands að námi (frá 1605) og komst þá í þjónustu Stens Brahes (bróður stjarnfræðingsins fræga Tychos Br.), hefir samt líkl. komið til landsins aftur um 1607–8. Svo er talið, að hann hafi að tilhlutan föður síns fengið vonarbréf fyrir rektorsembætti í Skálholti, en eigi hirt að taka við. Árin 1612–14 hefir hann haft umboð yfir Arnarstapaumboði, en hélt Hnappadalssýslu 1614–28, var einnig um og eftir 1620 lögsagnari Sæmundar sýslumanns Árnasonar í Snæfellsnessýslu.

Mun ekki hafa haft sýsluvöld eftir 1628. Eignir hans þurru mjög við drykkjuskap hans.

Hann bjó að Knerri, en er hann eltist, eirði hann illa langvistum, var með frændum sínum, andaðist í Hítardal í brúðkaupi Jóns síðar byskups Vigfússonar.

Kona (líkl. 1608): Guðrún Einarsdóttir prests á Staðastað, Marteinssonar, ekkja Jóns lögmanns Jónssonar, og var hún talin auðugust kona á Íslandi, en mjög sóaði maður hennar eignum hennar.

Sonur þeirra Steindórs: Jón lögréttumaður að Knerri (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.