Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Stefánsson

(1792–5. dec, 1845)

Prestur.

Foreldrar: Síra Stefán Þorsteinsson að Stóra Núpi og f.k. hans Guðný Þorláksdóttir að Móum á Kjalarnesi, Loptssonar. F. á Stóru Völlum. Lærði fyrst hjá síra Þorvaldi skáldi Böðvarssyni 2 vetur, síðan hjá síra Steingrími síðar byskupi Jónssyni og varð stúdent frá honum úr heimaskóla 1814, með meðalvitnisburði. Vígðist 18. maí 1817 aðstoðarprestur síra Bjarnhéðins Guðmundssonar í Vestmannaeyjum, varð 1821 aðstoðarprestur síra Einars Þorleifssonar í Guttormshaga, varð embættislaus 1823, er síra Einar lét af prestskap, fekk 1. mars 1824 Reynisþing og bjó á Heiði, Sólheimaþing 1838, í skiptum við síra Þórð Brynjólfsson, hélt til æviloka og bjó að Felli.

Kona (1817): Kristín (f. 1800, d. 18. nóv. 1890) Ólafsdóttir aðstoðarprests í Sólheimaþingum, Árnasonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Ólafur að Fjalli á Skeiðum, Guðný átti Einar umboðsmann Ingimundarson í Kaldaðarnesi, Sigríður átti fyrr Jón Sigurðsson frá Arnarbæli í Grímsnesi, síðar Bjarna Ögmundsson frá Oddgeirshólum, Valgerður óg. (d. 23 ára), Gróa átti Bjarna Guðmundsson í Efsta Dal, Elín átti Ólaf Þorsteinsson í Tungu í Grafningi, fóru til Vesturheims. Kristín ekkja síra Stefáns átti síðar Ófeig Vigfússon að Fjalli (Lbs. 48, fol.; Vitæ ord.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.