Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Högnason

(15. maí 1724–27. nóv. 1801)

Prestur.

Foreldrar: Síra Högni Sigurðsson á Breiðabólstað í Fljótshlíð og kona hans Guðríður Pálsdóttir yngsta að Sólheimum í Mýrdal, Ámundasonar. Var tekinn í Skálholtsskóla 1737, stúdent 18. ág. 1743, vígðist 28. apr. 1748 aðstoðarprestur föður síns, er þá var að Stafafelli og fluttist með honum að Breiðabólstað, fekk vonarbréf fyrir því prestakalli 18. febr. 1752, tók við staðnum 1763, við uppgjöf föður síns, sem þó hélt að nafninu prestakallið til æviloka (1770), og var síra Stefán ekki settur þegar inn í það af prófasti, fekk lausn frá því 20. febr. 1789, gegndi þar þó prestskap til 1792, fluttist þá að Árgilsstöðum, en síðar að Þingvöllum, til dóttur sinnar, og andaðist þar. Í vísitazíuskýrslum Hannesar byskups Finnssonar fær hann mjög lofsamlegan vitnisburð fyrir mannkosti og kennimannshæfileika. Hann hefir og verið áhugasamur í búnaði, því að 1780 fekk hann heiðurspening úr silfri og 1783 verðlaun frá landbúnaðarfélagi Dana.

Kona (28. okt. 1753): Guðrún (d. 16. júní 1801, 73 ára) Halldórsdóttir prests á Stað í Steingrímsfirði, Einarssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Högni að Hrepphólum, Sigríður átti síra Pál Þorláksson á Þingvöllum, Rannveig fyrsta kona síra Þorvalds skálds Böðvarssonar (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.