Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Hansson

(18. sept. 1793–26. okt. 1869)

Prestur.

Foreldrar: Hans Ormsson að Dysjum á Álptanesi og kona hans Vigdís Jónsdóttir á Hlemmiskeiði, Ólafssonar. Fór um 1800 að Staðastað, til síra Guðmundar Jónssonar, er átti móðursystur hans, lærði hjá honum undir skóla, tekinn í Bessastaðaskóla 1807, stúdent 1814, með góðum vitnisburði, var síðan 2 ár í þjónustu síra Markúsar Magnússonar í Görðum á Álptanesi, missti þar rétt til prestskapar, með því að hann átti tvíbura 1816 með Guðfinnu Bergsdóttur, er síðar átti síra Ólaf Thorberg, og hafði Stefán ætlað sér að kvongast henni, en ekki treyst sér til þess, vegna fátæktar. Fekk uppreisn 12. nóv. 1817. Var 2 ár skrifari Halldórs Thorgrímsens, er var settur sýslumaður í Gullbringusýslu. Var eftir það 7 ár kennari í Ólafsvík, hjá verzlunarstjóra þar, fór utan með honum 1827 og hugði að stunda þar nám, en lítið varð af því, og ekki var hann skráður í stúdentatölu í háskólanum, kom til landsins aftur 1828 og var í Ólafsvík næsta vetur, vígðist 17. maí 1829 aðstoðarprestur síra Ara Skordals á Stað í Aðalvík, fekk það prestakall 8. maí 1832, eftir lát hans, fekk Fljótshlíðarþing 9. júní 1842, lét þar af prestskap 1855, bjó að Valstrýtu og andaðist þar. Þókti daufur kennimaður, en kunnur að stillingu og ráðvendni.

Kona (10. sept. 1832): Guðrún (d. 18. júlí 1853) Helgadóttir í Heysholti á Landi, Erlendssonar, ekkja síra Ara Skordals á Stað í Aðalvík.

Börn þeirra, er upp komust: Ari að Valstrýtu, Guðrún átti Jóhann Jónsson að Valstrýtu (Vitæ ord. 1829; HÞ.. SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.