Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Halldórsson

(júlí 1722–2. nóv. 1802)

Prestur.

Foreldrar: Halldór Jónsson á Bakka í Öxnadal og kona hans Steinunn Guðmundsdóttir prests á Þönglabakka, Þorlákssonar. F. á Bakka. Lærði fyrst hjá síra Þorláki skáldi Þórarinssyni, tekinn í Hólaskóla 1737, stúdent 1744, varð 3. júní s.á. djákn á Reynistað, vígðist 27. dec. 1746 aðstoðarprestur síra Jóns Ketilssonar að Myrká, fekk það Prestakall 1751, eftir hann, fekk Vonarbréf fyrir Völlum 14. mars 1776, en nýtti það ekki, fekk Laufás 20. okt. 1784, fluttist þangað 1785, sagði þar af sér prestskap 4. nóv. 1796, frá fardögum 1797, en dvaldist þar til æviloka. Var búhöldur mikill og gróðamaður, einn hinn fremsti garðyrkjumaður norðanlands, fekkst við lækningar, kennimaður góður og mikils virður, skáldmæltur (sjá Lbs.); pr. er eftir hann: Drottins vors... fæðingarhistoría (30 hugvekjur). Hól. 1771, 1781, Kh. 1836 (eftir Fæðingarsálmum síra Gunnlaugs Snorrasonar); Nokkurar krossskólareglur, Hól. 1775 (eftir Krossskólasálmum Jóns Einarssonar). Í skýrslum Harboes fær hann ágætan vitnisburð.

Kona (10. okt. 1747): Þuríður (f. 17. ág. 1726, d. 16. júlí 1782) Jónsdóttir prests að Myrká, Ketilssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón hreppstjóri í Lögmannshlíð, Guðrún átti síra Þórarin skáld Jónsson að Múla, Sesselja f. k. síra Jóns Konráðssonar að Mælifelli, Þorbjörg f. k. Gísla Ásmundssonar í Nesi, síra Jón á Helgastöðum, Hólmfríður átti síra Gamalíel Þorleifsson að Myrká, Þorsteinn stúdent, Steinunn óg. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.