Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Gunnlaugsson

(9. okt. 1802–13. apr. 1883)

Landfógeti.

Foreldrar: Síra Gunnlaugur Þórðarson á Hallormsstöðum og f.k. hans Ólöf Högnadóttir að Stóra Sandfelli, Torfasonar.

Tekinn í Bessastaðaskóla 1821, stúdent 1825, með góðum vitnisburði, fór utan samsumars, var 18. okt. skráður í stúdentatölu í háskólanum, með 1. einkunn, hefir vafalaust ætlað sér að taka próf í latneskum lögvísindum, en varð að hætta námi vegna augnveiki, tók próf í dönskum lögum 31. okt. 1826, með 1. eink. í bóklegu 2. eink. í verkl. prófi, var síðan í skrifstofu Moltkes stiftamtmanns í Álaborg, fekk Borgarfjarðarsýslu 24. maí 1828, var settur í Gullbringu- og Kjósarsýslu veturna 1828–9, bjó í Belgsholti og að Krossi á Akranesi, fekk Gullbringu- og Kjósarsýslu 24. febr. 1835, varð landfógeti 9. okt. 1838, í skiptum við Martein Tvede, og 4. dec. s. á. bæjarfógeti í Reykjavík, hlaut kammerráðsnafnbót 28. júní 1847, fekk lausn frá bæjarfógetastörfum 30. júní 1848 og frá landfógetaembætti 28. júlí s. á., en gegndi því þó til 1. ágúst 1849, var þá settur fyrir Borgarfjarðarsýslu fram á árið 1850, fluttist til Kh. 1852 og var þar til æviloka. Átti sæti í embættismannanefndinni 1839 og 1841.

Eftir hann er í handritum: Ræðukorn á kjörþingi Reykvíkinga 1844 (Lbs.). Hann var skarpur maður og vel gefinn, en gerðist með aldri undarlegur í háttum og eigi við alþýðuskap.

Kona 1 (3. apr. 1830): Ragnhildur (f. 29. maí 1801, d. 15. okt. 1841) Benediktsdóttir yfirdómara og skálds Gröndals.

Börn þeirra, sem upp komust: Dr. Ólafur Bjarni Verner Lúðvík ritstjóri í París, Vilhelmína, Bertel Högni málfræðingur síðast í Tacoma í Washington.

Kona 2 (21. nóv. 1844): Jórunn (d. í Kh. 1871) Guðmundsdóttir í Króki í Flóa, Hannessonar.

Þau skildu,

Börn þeirra: Ragnhildur giftist í Kh., Brynjólfur fór til Kh. (BB. Sýsl.; Tímar. bmf. ITI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.