Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Einarsson

(1698–1. nóv. 1754)

Prestur, officialis.

Foreldrar: Einar Jónsson að Giljum í Hálsasveit og kona hans Hildur Stefánsdóttir, föðursystir Þorleifs rektors Halldórssonar, og er hann talinn hafa tekið hann í Hólaskóla, hefir líkl. orðið stúdent þaðan 1719 eða 1720, var um tíma í þjónustu Jens sýslumanns Spendrups, varð djákn að Möðruvallaklaustri 30. apr. 1721, en 1726 djákn að Munkaþverá, fekk það prestakall 1730, vígðist líkl. 20. ág. s. á., missti það vegna of bráðrar barneignar með konu sinni, bjó síðan að Espihóli, fekk uppreisn 6. mars 1733, varð 1734 aðstoðarprestur síra Guðmundar Jónssonar í Grundarþingum, fekk Laufás 3. mars 1738, fluttist þangað 1739 og hélt til æviloka. Í skýrslum Harboes fær hann hið mesta lof, enda vildi hann fá hann til byskups að Hólum 1743, aftur 1744, en síra Stefán skoraðist undan, var prófastur í Þingeyjarþingi frá 1748 til æviloka, skipaður officialis í veikindum byskups 27. júní 1752, gegn mótmælum sínum. Hann er talinn verið hafa manna Ófríðastur sýnum, en gáfumaður mikill og með lærðustu mönnum á sinni tíð, merkur maður, hógvær og lítillátur, enda vinsæll. Hann hefir samið reikningsbók á íslenzku, „Limen arithmeticum“ og „Monita ecclesiastica“ á ísl. (eru í handritum í Lbs.); var og hagmæltur.

Kona (3. ág. 1732): Jórunn (d. 7. nóv. 1775, TT ára) Steinsdóttir byskups Jónssonar, ekkja Hannesar klausturhaldara Schevings.

Börn þeirra síra Stefáns, sem upp komust: Margrét átti Þorgrím stúdent Jónsson að Á í Ólafsfirði, Guðlaug átti Ólaf gullsmið Jónsson í Selkoti undir Eyjafjöllum, Guðrún s. k. síra Jóns Egilssonar að Laufási, Hildur átti Magnús hanzkagerðarmann Árnason (bróður síra Einars í Sauðanesi), Kristín átti síra Magnús Björnsson aðstoðarprest á Helgastöðum (Saga Ísl. VI; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.