Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Stefán Björnsson

(15. jan. 1721–15. okt. 1798)

Rektor.

Foreldrar: Síra Björn Skúlason í Hofstaðaþingum og kona hans Halldóra Stefánsdóttir bónda á Silfrastöðum, Rafnssonar, Tekinn í Hólaskóla 1736, stúdent 20. maí 1744, varð djákn á Þingeyrum 3. júní s.á., fór utan 1746, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 16. dec. s.á., tók guðfræðapróf 4. maí 1747, með 3. einkunn, varð djákn að Munkaþverá 7. mars 1750, settur rektor í Hólaskóla 1753, fekk veiting frá konungi 24. maí 1754; vegna missættis við Jón officialis Magnússon varð hann fyrir sektum, og er Gísli byskup Magnússon kom til stólsins, 1755, veik hann honum frá embætti, fór utan sama haust, varð baccalaureus í heimspeki 6. ág. 1757, hafði reikningshald þríhyrningamælinga hins danska vísindafélags, vann að ýmsum sagnaþýðingum fyrir Suhm (sjá Ny kgl. Saml.), varð 1797 styrkþegi Árnasjóðs, fekk 1792 accessit og 1793 heiðursgullpening háskólans fyrir ritgerðir í stærðfræði. Andaðist í Kh. ókv. og bl. Í skýrslum Harboes fær hann mikið lof fyrir gáfur, einkum taki hann öllum fram í stærðfræði. Hann virðist hafa verið þunglyndur til muna þau ár, sem hann var hér á landi. Hann sá um prentun á Rímbeglu 1780, Hervarar sögu 1785. Eftir hann eru og pr. smáritgerðir í stjarnfræði og stærðfræði, flestar á latínu, og nokkurar á ísl. í ritum lærdómslistafélags (HÞ, Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.