Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Snorri Björnsson

(3. okt. 1710–15. júlí 1803)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Björn Þorsteinsson (Þorgeirssonar) Í Höfn í Melasveit og kona hans Guðrún Þorbjarnardóttir í Birtingaholti, Eiríkssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1724, stúdent 23. apr. 1733, var síðan í þjónustu ýmissa fyrirmanna, fekk Stað í Aðalvík 27. apr. 1741 (að skipan amtmanns, og var hann tregur að taka við), vígðist 6. ág. s.á., fekk Húsafell 3. maí 1757, sagði þar af sér prestskap 29. okt. 1796, að áskildum þriðjungi tekna. Settur 17. mars 1783 prófastur í Borgarfjarðarsýslu, þangað til nýr prófastur yrði kjörinn. Í skýrslum Harboes fær hann góðan vitnisburð, enda var hann skarpur maður, vel gefinn og minnugur, reglubundinn og starfsmaður mikill, hið mesta karlmenni að burðum, en ekki auðgaðist hann; var dánarbú hans virt á 111 rd., að frádregnum skuldum. Hann hefir orkt mjög mikið (sjá Lbs.); pr. rímur eftir hann eru: Af Sigurði Snarfara, Hrappsey 1781, Jóhönnuraunir, Hrappsey 1784 (Viðey 1829, Rv. 1904), af Arnljóti Upplendingakappa, Kh. 1833; ópr.: af Hálfdani Brönufóstra. Eftir hann er (í Lbs.): Stutt ágrip um Íslands náttúrugæði. Kvæði eftir hann eru í Ísl. gátur, skemmtanir o. s. frv. III. Um hann eru geysimiklar þjóðsagnir.

Kona (1750): Hildur (f. 1727, d. 1813) Jónsdóttir prests á Stað í Aðalvík, Einarssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Einar í Múlakoti í Stafholtstungum, Helga átti fyrr Guðmund Eiríksson að Nautabúi, giftist því næst Einari Sigurðssyni að Sturlureykjum, Jakob smiður að Húsafelli, Kristín átti Sigurð Jónsson á Hvítárvöllum, Guðrún óg., járnsmiður góður, síra Björn aðstoðarprestur að Húsafelli, Guðný óg., smiður góður (HÞ.: SGrBf.; Alm. Þjóðvinafél. 1935).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.