Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Skúli Thorlacius (Þórðarson)

(10. apr. 1741–30. mars 1815)

Rektor.

Foreldrar: Þórður klausturhaldari Thorlacius í Teigi í Fljótshlíð og kona hans Kristín Sigurðardóttir eldra sýslumanns í Saurbæ á Kjalarnesi, Sigurðssonar. Tekinn í Skálholtsskóla (efra bekk) 1755, stúdent 18. apr. 1758, fór utan s.á., skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. dec. s. á., tók próf í heimspeki 1760, með 1. einkunn, varð baccalaureus 30. júlí 1761, tók guðfræðapróf 24. apr. 1765, með 1. einkunn, fekk vist í Borchs kollegium 11. sept. s.á. til 11. júní 1769, varð magister að nafnbót 27. sept. 1768, rektor í latínuskólanum í Kolding 17. febr. 1769, rektor í Maríuskóla (aðallatínuskóla Kh.) 8. jan. 1777, fekk 4. febr. 1803 lausn frá því starfi, frá 1. mars að telja. Hann var skipaður leyndarskjalavörður 1780, en afþakkaði það, tók þó að sér að halda fram Heimskringluprentun, er hinn fyrri leyndarskjalavörður (Schöning) hafði staðið fyrir. Fekk 1774 verðlaunapening úr silfri frá listaskólanum fyrir latn. kvæði við trúlofun Friðriks erfðaprinz, varð jústitsráð 16. ágúst 1780, félagi hins danska vísindafélags 1. maí 1789, heiðursfélagi fornfræðafélagsins í Lundúnum 11. júní s.á., auk þess félagi ýmissa annarra vísindafélaga og átti sæti í ýmsum nefndum, t.d. Árnasafnsnefnd, skólatilhögunarnefnd Dana, er sett var 1797. Andaðist í Kh. úr aðsvifi.

Hann þókti hinn snjallasti málfræðingur og sinnti talsvert ísl. fornfræði. Eftir hann er margt prentað, bæði sjálfstætt og í tímaritum (vandlega talið upp í Erslew II og Erslew Supplem. III; merkast mun talið Antiquitatum borealium observationes miscellanæ (skólaboðsrit), VIII, Kh. 1778–99). Hann þókti hið bezta latínuskáld, sem þá var uppi (kvæðabók í ehdr. í Lbs.).

Kona (28. ágúst 1771): Agatha (f. 30. sept. 1743, d. 29. dec. 1825), dóttir H. C. Risbrighs í Veilby. Synir þeirra: Kristján Pétur rektor í Kolding, Þórður sýslumaður, síðast bæjarritari í Ringköbing, Birgir prófessor, Kristján Lúðvík dómari í landsyfirdómi í Kh. (HÞ. Guðfr.; Erslew; Sunnanfari XIlI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.