Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Skúli Magnússon

(6. apr. 1768–14. júní 1837)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús sýslumaður Ketilsson í Búðardal og f. k. hans Ragnhildur Eggertsdóttir að Skarði á Skarðsströnd, Bjarnasonar. Nam skólalærdóm hjá föður sínum, en varð stúdent úr heimaskóla frá Gísla rektor Thorlacius 25. júlí 1791, fór utan 1792, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 8. nóv. s. á., með 2. einkunn, tók annað lærdómspróf 18. apr. og 1. okt. 1793, með 2. einkunn, kom snöggvast til landsins 1794, tók síðan að nema dönsk lög og lauk prófi í þeim 26. jan. 1796, með 1. einkunn í bóklegu prófi, og 5. febr. s. á., með 2. einkunn í verklegu. Fekk 12. mars 1796 leyfi rentukammers til að vera aðstoðarmaður föður síns, með von um sýsluna eftir hann, fekk og veiting fyrir Dalasýslu 18. apr. 1804 og hélt til æviloka, varð kammerráð 21. maí 1831, bjó að Skarði á Skarðsströnd og andaðist þar úr brjóstveiki.

Veglyndur maður og mildur og þó berorður, einkum við öl, ástsæll mjög, búhöldur góður og auðmaður.

Kona (14. sept. 1799): Kristín (f. 24. mars 1767, d. 9. nóv. 1851) Bogadóttir í Hrappsey, Benediktssonar, ekkja síra Þórðar aðstoðarprests Ólafssonar í Skarðsþingum.

Börn þeirra Skúla sýslumanns: Kristján sýslumaður að Skarði, Ragnhildur átti Þorvald umboðsm. Sívertsen í Hrappsey, Kristín átti Jón stúdent Eggertsson í Fagradal ytra (BB. Sýsl.; Tímar. bmf. ITI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.