Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ari Magnússon

(1571– Il. okt. 1652)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús sýslumaður Jónsson prúði í Ögri, síðast í Bæ á Rauðasandi, og Ragnheiður Eggertsdóttir lögmanns, Hannessonar. F. í Ögri. Þess getur í eftirmælum eða minningarljóðum um Ara, að hann hafi verið 9 vetur að námi í Hamborg. Það má telja víst, að hann hafi verið í Hamborg ungur, því að þar átti hann frændur í móðurætt, hvort sem vetratalan er rétt greind eða ekki.

Hann tók Barðastrandarsýslu eftir föður sinn (1592) og fekk konungsveiting fyrir henni 20. apr. 1593 og jafnframt umboð nokkurra konungsjarða. Sýslunni sleppti hann 1598, við Björn, bróður sinn, en tók þá Ísafjarðarsýslu, eftir Pál Jónsson, föðurbróður sinn (Staðarhóls-Pál) og jafnframt (1609) Strandasýslu; hélt hann þær báðar til dauðadags, en hafði umboðsmenn eða lögsagnara til þess að sinna störfum sínum þar; auk þess hafði hann umboð konungsjarða í Ísafjarðarsýslu. Hann bjó ýmist að Reykhólum (sem hann keypti 1601 af Birni sýslumanni Benediktssyni, dótturmanni Páls, föðurbróður síns) eða í Ögri, framan af líkl. einkum að Reykhólum, en eftir 1620 algerlega í Ögri.

Ari var í lögmannskjörum 1606 og neitaði að taka við lögmannsdæmi 1614. Hann var mikilli maður vexti (hann og Oddur byskup Einarsson báru höfuð yfir aðra menn á alþingi).

Hann varð maður stórauðugur og vildi verja hérað sitt, sem sjá má af kaupsetningu hans 5. maí 1615, og aftraði hann þar yfirgangi kaupmanna í verðlagi; sama máli gegnir um viðureign hans við Spánverja og vígum þeirra (1615–16) og marköngladóm hans 11. apr. 1616. Hins vegar mun hann hafa þókt nokkuð harðdrægur, og ekki vildi mágafólk hans að Hólum (Halldóra Guðbrandsdóttir, mágkona hans) hafa nokkur afskipti hans af stólsforráðum, eftir að Guðbrandur byskup Þorláksson, tengdafaðir hans, gat ekki lengur sinnt forráðum þar vegna veikinda (bréf Halldóru 29. ág. 1625), enda var Ara með konungsbréfi 31. mars 1626 bannað að viðlagðri hegningu að hafa nokkur afskipti af stólnum eða eignum hans.

Ari í Ögri á nokkurn þátt í Vatnsfjarðarannálum. Til er í eiginhandarriti (British Museum, Add. 4883) þýðing hans á danskri guðsorðabók, „Handbók eður umhugsunarbók pínunnar -.. Jesu Christi“.

Kona (1594): Kristín (f. um 1574, d. 1. okt. 1652) Guðbrandsdóttir byskups, Þorlákssonar.

Börn þeirra, sem ættir eru frá: Magnús sýslumaður á Reykhólum, Þorlákur í Súðavík, síra Jón í Vatnsfirði, Halldóra kona Guðmundar sýslumanns Hákonarsonar á Þingeyrum (Ann. bmf. III; BB. Sýsl.; PEÓl. Mm.; HÞ.; Sunnanfari Ill; Saga Ísl. IV–V).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.