Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Ólafsson

(31. júlí 1732–8. mars 1810)

Klausturhaldari. Launsonur Ólafs sýslumanns Árnasonar í Haga og Guðrúnar Hjaltadóttur prests að Vatnsfirði, Þorsteinssonar.

Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 1752, var síðan hjá föður sínum, fór utan 1753, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 18. dec. 1753, lagði stund á lögfræði, kom til landsins 1755, var um tíma í þjónustu Davíðs sýslumanns Schevings, settur sýslumaður í Skaftafellssýslu sumarið 1758, fekk Kirkjubæjarklaustur 1759, missti allar skepnur sínar í Skaftáreldunum 1783–4 (nema 1 kú), komst í stórskuldir, sleppti klaustrinu, bjó að Stóra Hólmi í Leiru 1785–99, fluttist að Melum 1803 og andaðist þar.

Kona (29. sept. 1761): Ingibjörg (d. 1803) Bergsdóttir prests í Bjarnanesi, Guðmundssonar.

Börn þeirra: Bergur að Melaleiti og Áskoti í Melasveit, Guðrún, Þorbjörg, Þóra. Laundóttir Sigurðar með Ragnheiði Sigurðardóttur prests í Holti í Önundarfirði, Sigurðssonar (þau leynilega trúlofuð): Ásta, mun hafa dáið ung (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.