Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Vigfússon, sterki, „Íslandströll“

(16. okt. 1691–20. nóv. 1752)

Rektor, sýslumaður.

Foreldrar: Vigfús sýslumaður Árnason í Hnappadalssýslu og kona hans Helga Sigurðardóttir, Björnssonar, Lærði í Hólaskóla, fór utan 1720, var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 26. nóv. s.á., tók guðfræðapróf 19. mars 1722, með 2. einkunn, var rektor að Hólum 1724, fekk leyfi 1734 að halda embætti, þótt átt hefði barn fyrir tímann með konu sinni, lét af því starfi 1742, að ráði Harboes, er þókti hann ekki vel að sér, bjó í Gröf á Höfðaströnd, fekk Dalasýslu 15. mars 1745 og hélt til æviloka, fluttist fyrst að Vatnshorni, en bjó síðan að Stóra Skógi. Hann Þókti heldur einfaldur og lélegur sýslumaður, en orðlagt karlmenni.

Kona (1734): Karítas Guðmundsdóttir prests að Helgafelli, Jónssonar. Dætur þeirra: Helga átti Guðmund Guðmundsson á Kaðalsstöðum, Karítas átti fyrst Guðbrand nokkurn Þorláksson, hljóp frá honum 1763, átti þann vetur son (Björn), er hún kenndi síra Þorláki skáldi Þórarinssyni; en hann sór fyrir, og var hann skrifaður sonur Guðbrands, en þau voru skilin með dómi 26. sept. 1766, og skildi hún ekki mega giftast nema með konungsleyfi að 4 árum liðnum, átti síðan Erlend lögfræðing Sigurðsson að Brekkum, Þorkatla átti Þorbjörn gullsmið Ólafsson að Lundum (Saga Ísl. VI; BB. Sýsl.; HÞ, Guðfr.; HÞ.) Sigurður Vigfússon (1749–16. maí 1798).

Prestur.

Foreldrar: Síra Vigfús Sigurðsson í Nesi og kona hans Sigríður Jónsdóttir að Stóra Núpi, Magnússonar. Ólst eftir lát föður síns upp hjá Sigurði alþingisskrifara Sigurðssyni að Hlíðarenda. Tekinn í Skálholtsskóla 1765, stúdent 1772, varð djákn í Odda 26. sept. 1773, fekk Skeggjastaði 18. apr. 1776, vígðist 5. maí s. á., fekk Hof í Álptafirði 19. maí 1791, fór þangað vorið 1791 og hélt til æviloka, andaðist í Djúpavogskaupstað úr ofdrykkju. Vel gefinn maður, skáldmæltur (sjá Lbs.), glímumaður ágætur, en mjög drykkfelldur.

Kona (26. sept. 1790): Guðrún (f. um 1765, d. 22. apr. 1837) Eymundsdóttir að Skálum á Langanesi, Ólafssonar; þau bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.