Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Sveinsson

(1700–7. apr. 1758)

Prestur.

Foreldrar: Sveinn Jónsson að Hólum í Hornafirði og s.k. hans Guðlaug Högnadóttir prests í Einholti, Guðmundssonar. Ólst upp hjá móðursystur sinni, Elínu Högnadóttur að Svínafelli, tekinn í Skálholtsskóla 1721–5, vígðist 7. okt. 1725 aðstoðarprestur síra Árna Álfssonar í Heydölum, fekk það prestakall í apríl 1737 og hélt til æviloka.

Í skýrslum Harboes er sagt, að hann sé talinn lærður, en drykkfelldur, og í skýrslu Ólafs byskups Gíslasonar 10. apr. 1749 er hann talinn harðlyndur og nokkuð sérlundaður.

Kona (27. okt. 1726): Hallgerður Árnadóttir prests í Heydölum, Álfssonar.

Börn þeirra: Síra Gísli í Heydölum, síra Sveinn í Stöð, Guðlaug átti Árna á Löndum í Stöðvarfirði Torfason, Pálssonar, Margrét átti síra Eirík Einarsson á Kolfreyjustað, Sigríður ógift, Guðríður ógift (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.