Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Sigurðsson, eldri

(21. dec. 1679–11. jan. 1745)

Sýslumaður.

Foreldrar: Sigurður lögmaður Björnsson og kona hans Ragnheiður Sigurðardóttir lögmanns í Einarsnesi, Jónssonar, Lærði mest hjá síra Árna Þorvarðssyni á Þingvöllum og síra Jóhanni Þórðarsyni í Laugardælum, tekinn í Skálholtsskóla 1696, stúdent 1699, varð alþingisskrifari 2. júlí 1700, sleppti því starfi 1728, hafði og 16. febr. 1724 fengið Árnesþing og hélt því til æviloka. Hann var lagamaður mikill, harður og fylginn sér, talinn einn hinna helztu sýslumanna á sinni tíð; átti oft málaferli og hélt jafnan hlut sínum; var utanlands 1708–9 og 1712–13 í málum föður síns, var stundum setudómari og skipaður sækjandi í málum; var einn þeirra, sem unnu að lagaverkinu, þ.e. Íslenzkri lögbók.

Hann var af konungsfulltrúum skipaður til að gegna lögmannsverkum norðan og vestan 1716, en vildi ekki. Bjó fyrst (frá 1704) í Eyjum í Kjós, en frá 1719 til æviloka í Saurbæ á Kjalarnesi, fekk fyrst leyfi til að búa utan sýslu, en síðan var það aftekið 1732, og hafði hann þó ekki lögsagnara (Brynjólf, son sinn) fyrr en 1734. Eins konar dagbók hans er í Lbs.

Kona 1 (19. ág. 1703): Kristín (d. 10. okt. 1707, á 34. ári) Jónsdóttir eldra sýslumanns, Vigfússonar, ekkja Torfa Guðmundssonar að Keldum. Dóttir þeirra: Helga átti Hannes Vigfússon að Hofi.

Kona 2 (6. okt. 1709): Málmfríður Einarsdóttir prests í Görðum á Álptanesi, Einarssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Brynjólfur sýslumaður í Hjálmholti, Sigurður alþingisskrifari að Hlíðarenda, Kristín átti laundóttur (Margréti) með Oddi stúdent Eiríkssyni, giftist síðan Þórði klausturhaldara Brynjólfssyni Thorlacius (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.