Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Sigurðsson

(12. ág. 1828 – 3. júní 1917)

. Smiður.

Foreldrar: Sigurður (d. 11. mars 1884, 83 ára) Sigurðsson á Felli í Kollafirði og kona hans Guðbjörg (d. 5. júní 1869, 65 ára) Magnúsdóttir á Felli, Magnússonar. Lærði smíðar í Flatey á Breiðafirði og stundaði þá iðn alla ævi. Smíðaði margar (14?) kirkjur, þar af 7 í Strandaprófastsdæmi og standa 5 þeirra enn. Átti síðast heima á Hólmavík og dó þar. Kona: Guðrún (d. 13. sept. 1933, 84 ára) Jónsdóttir á Saurhóli í Saurbæ og víðar, Magnússonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Steinvör átti Guðmund Eymundsson frá Bæ á Selströnd, Bjarnfríður átti Pétur Hansson í Rv., Guðbjörg átti Sigurjón Árnason á Hörghóli, Sigurjón bankaritari í Rv., Stefán skáld frá Hvítadal, Þorkell úrsmiður í Rv., Torfi á Hvítadal. Dóttir Sigurðar, áður en hann kvæntist (með Guðbjörgu Helgadóttur): Helga átti Þorstein Helgason í Hrafnadal (Kirkjubækur; o. fl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.