Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Sigurðsson

(11. nóv. 1849–26. júlí 1884)

Adjunkt.

Foreldrar: Sigurður Ólafsson í Skíðsholtum á Mýrum og kona hans Kristín Margrét Þórðardóttir, Þórðarsonar. Tekinn í Reykjavíkurskóla 1866, stúdent 1872, með 1. eink. (86 st.). Fór til háskólans í Kh. 1874 og tók þar próf í heimspeki 1875, embættispróf í málfræði 1879, bæði með 1. einkunn. Settur adjunkt í Reykjavíkurskóla 1879, fekk embættið að veitingu 1880 og hélt til æviloka. Var í Frakklandi sumarið 1880. Vel gefinn maður og hagmæltur, þótt lítið bæri á. Í vinahóp nefndur „slembir“. Eftir hann er ritgerð í Aarb. f. nord. oldkh. 1881; þýð.: K. Maurer: Upphaf allsherjarríkis á Íslandi, Rv. 1882.

Drukknaði á Kollafirði, var í skemmtiferð. Launsonur hans (með útlendri konu): Sigurður skáld, lyfsali í Vestmannaeyjum (Minnr. Rvsk.; BB. Sýsl.; o.fl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.