Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Ormsson

(1235)

Goðorðsmaður.

Foreldrar: Ormur Jónsson (eldri) að Svínafelli (í beinan legg af Svínfellingakyni) og kona hans Helga Árnadóttir, Grímssonar.

Kona 1: Sigríður Tumadóttir (Kolbeinssonar), hálfsystir Kolbeins og Arnórs og Halldóru, konu Sighvats Sturlusonar.

Kona 2: Þuríður Gizurardóttir, er verið hefir síðari kona tengdaföður hans (móðir Kolbeins, Arnórs og Halldóru). Bjó fyrst að Svínafelli. Átti deilur við Sæmund Jónsson í Odda og varð að lúta í lægra haldi. Mikill vinur Guðmundar Arasonar; tók við staðarforráðum að Hólum í utanför hans til vígslu og bætti þar bæði hús og jók fé.

Fekk Guðmundur byskup honum, er hann kom aftur úr utanför, Möðruvöllu í Hörgárdal, og bjó hann þar að mestu síðan.

Brátt óvingaðist með þeim byskupi, og var þá Sigurður með aðalandstæðingi byskups, Arnóri Tumasyni, mági sínum.

Eigi getur barna Sigurðar (Sturl.; Bps. bmf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.