Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Narfason, skáld

(15. og 16. öld)

Lögréttumaður í Fagradal.

Foreldrar: Narfi sýslumaður Sigurðsson í Fagradal og kona hans (ónefnd), dóttir Bjarna í Glaumbæ og að Meðalfelli Ívarssonar hólms yngra.

Er enn á lífi 1538. Í Tíðsfordrífi Jóns lærða Guðmundssonar er hann talinn í skáldaröð og nefndur „Sigurður blindur í Fagradal“. Er af því að ráða, að hann hafi orðið blindur einhvern tíma á ævinni, en engan veginn, að þetta sé sami maður sem Sigurður skáld blindi hinn austfirzki (Kvæðasafn bmf.).

Eftir hann gæti þá verið einkum Reinaldsrímur, kvæðið Rósa og sumar rímna þeirra, sem nafna hans hinum austfirzka eru eignaðar, enda var hann af skáldum kominn (Lopti ríka) og skáld voru af honum (Gunnlaugur Ormsson í Hvítadal).

Kona: Valgerður Þórðardóttir að Staðarfelli (systir Sturlu sýslumanns). Synir þeirra: Ormur í Fagradal, Oddur á Eyri í Kjós (Dipl. Isl.; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.