Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Jónsson

(– – 16. sept. 1602)

Sýslumaður.

Foreldrar: Jón Magnússon á Svalbarði og kona hans Ragnheiður Pétursdóttir í Djúpa Dal, Loptssonar. Hann er orðinn sýslumaður í Vaðlaþingi 1572, en í Múlaþingi 1577 og hélt þá sýslu a. m.k. til 1579, fekk Reynistaðarklaustur 12. maí 1579, fluttist þá þangað og var þar til æviloka, en hafði áður búið á Svalbarði; þá eða skömmu síðar fekk hann og Hegranesþing, hefir haldið það til 1585, síðan aftur frá 1597 eða 1598 til æviloka. Hann átti deilur miklar við Guðbrand byskup og var nokkuð mikill fyrir sér, sem þeir bræður hans, „þó í mörgu vænn maður “.

Kona (24. okt. 1563). Guðný Jónsdóttir á Ökrum, Grímssonar lögmanns, Jónssonar.

Börn þeirra: Jón lögmaður á Reynistað, Elín átti Guðmund Einarsson á Staðastað, Halldóra átti Þorberg sýslumann Hrólfsson, Ragnheiður átti síra Sæmund Kársson í Glaumbæ, Guðlaug óg. Launsonur hans: Þorfinnur (BB. Sýsl.; PEÓI. Mm.; Saga Ísl. IV; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.