Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Jónsson

(– – 1595?)

Prestur.

Foreldrar: Jón byskup Arason og Helga Sigurðardóttir, Sveinbjarnarsonar.

Hann fór utan 1534, fekk þá Grenjaðarstaði og hélt til æviloka, kom til landsins 1535; aftur fór hann utan á konungs fund í erindum föður síns 1542, er nefnir hann þá „kanoka Þrándheimsdómkirkju“. Hann er officialis 1547, í byskupsstað eftir lát föður síns og aftur eftir lát Ólafs byskups Hjaltasonar, prófastur um hríð í Þingeyjarþingi (1571–3) og hafði lengi umboð Hólastóls í Norðurumboðum um daga Guðbrands byskups.

Hann var hinn mesti kirkjuhöfðingi og hélt sig með rausn, en þó maður friðsamur, fésýslumaður mikill og stórauðugur.

Hjá honum voru oft synir tiginna manna til kennslu. Við hann er kennt Sigurðarregistur, eignaskrá Hólastóls og kirknaeigna nyrðra (á skinni í Þjóðskjalasafni). Hann er talinn hafa þýtt smárit um djöfulóða menn eftir Pétur byskup Palladíus („Ein undirvísan“), sem nú er glatað. Hann er d. fyrir 18. júlí 1595.

Kona: Sesselja Pétursdóttir lögréttumanns í Djúpa Dal, Loptssonar.

Börn þeirra stálpuðust, en dóu, er þau voru komin á legg, og er engin ætt af þeim. Laundóttir hans (með Guðrúnu Markúsdóttur): Þuríður átti Magnús Árnason í Djúpa Dal eða Stóra Dal í Eyjafirði; sumir nefna og launson hans Guðmund, er fluttist á Vesturland (Bps. H.; PEÓl. Mm.; Saga Ísl. IV; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.