Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Jónsson

(1700–23. júlí 1778)

Prestur.

Foreldrar: Jón lögréttumaður Steingrímsson á Bjarnastöðum og kona hans Ingiríður Aradóttir prests á Mælifelli, Guðmundssonar. Tekinn í Hólaskóla 1711, stúdent 1720, varð síðan sveinn Steins byskups Jónssonar, fekk Flugumýrarþing 14. júní 1723, vígðist 1. ág. s. á., bjó á Hjaltastöðum, fekk Garða á Akranesi 12, okt. 1730 með amtmannsveitingu, en 6. júní 1732 fekk annar prestur konungsveiting fyrir Görðum, en eigi afhenti hann Garða fyrr en 31. maí 1735, hafði þá fengið Mosfell í Grímsnesi (afhent honum 30. apríl 1735), fekk Holt undir Eyjafjöllum 3. sept. 1742 (konungsstaðfesting 26. apr. 1743), tók við vorið 1743, lét þar af prestskap sumarið 1775, en var þar til æviloka, varð prófastur í Rangárþingi 1746, sagði því starfi af sér 13. nóv. 1775, var þá orðinn geðbilaður og sjónlaus. Var merkismaður, trygglyndur og ráðhollur, búhöldur mikill og starfsamur, nokkuð aðsjáll, en þó góður nauðstöddum, drykkfelldur nokkuð, kennimaður ágætur og frægur ræðuskörungur. Í skýrslum Harboes fær hann ágætan vitnisburð.

Kona (1731): Valgerður (d. 1775) Jónsdóttir í Laugarnesi, Þórðarsonar, Sturlusonar.

Börn þeirra: Síra Páll í Holti undir Eyjafjöllum, síra Jón í Holti í Önundarfirði, síra Árni síðast í Holti undir Eyjafjöllum, Jarþrúður átti Jakob klausturhaldara Jónsson að Rauðafelli, Sigríður átti Þorvald Þorsteinsson síðast í Hlíð í Selvogi, Magnús var blindur, skarpleikamaður, ókv. og bl., Þorbjörg átti síra Jón Hálfdanarson að Eyvindarhólum, Sigurlaug átti Jón lögréttumann Vigfússon að Fossi og í Skál á Síðu, Jórunn átti síra Sigurð Ingimundarson í Arnarbæli, Ingiríður átti síra Erlend Þorsteinsson í Árnesi, Guðrún óg. og bl., Friðrik dó ungur (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.