Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Jónsson

(12. dec. 1643–1730)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón skáld Arason í Vatnsfirði og kona hans Hólmfríður Sigurðardóttir yngra að Oddgeirshólum, Oddssonar byskups. Tekinn í Skálholtsskóla 1657, stúdent 1661, var um tíma eftir það að námi hjá síra Páli Björnssyni í Selárdal, fór utan 1665, skráður í stúdentatölu 26. okt. s. á., varð attestatus, fekk vonarbréf fyrir Holti í Önundarfirði 8. maí 1668, kom til landsins s.á., vígðist 27. júní 1669 aðstoðarprestur síra Jóns Jónssonar í Holti, fekk prestakallið að fullu 1680 og hélt til æviloka (þótt hann segði af sér prestskap 1. júlí 1729), varð s. á. prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu og jafnframt í norðurhlutanum 1691, og var prófastur í allri sýslunni til 1711, er hann fekk lausn frá því starfi. Hann var mikilhæfur maður og fekk gott orð, var talinn einn líklegastur til byskups að Hólum eftir lát Jóns byskups Vigfússonar, en vildi ekki taka það að sér; var vel að sér og fróðleiksmaður, sem bræður hans og frændur fleiri.

Hann hefir skrifað nálega allar útfararminningar í ÍB. 211, 4to. (og er þar ein líkræða samin af honum sjálfum) o. fl. uppskriftir eru til eftir hann í söfnum, en samið hefir hann lýsing Holtsprestakalls, og er hún í skjalabók hans; annálsgreinir eru og eftir hann.

Kona (29. sept. 1672): Helga (f. um 1650, d. í mars 1737) Pálsdóttir prests í Selárdal, Björnss.

Börn þeirra: Þórunn óg. og bl., Halldóra óg. og bl., Ragnheiður átti síra Teit Pálsson á Eyri í Skutulsfirði, síra Sigurður í Holti í Önundarfirði, Guðbrandur að Gerðhömrum (Ann bmf.; Saga Ísl. V; HÞ; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.