Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Einarsson

(16. og 17. öld)

Prestur. Faðir hans hefir á síðari árum verið talinn síra Einar Árnason í Vallanesi, en það er naumast líklegt.

Sennilegra er, að síra Sigurður hafi verið kominn af síra Hjálmi, syni síra Einars (sjá sonarnafn hans). Er orðinn prestur í Rauðasandsþingum eigi síðar en 1602, en flýði land um 1605 vegna barneigna með Sesselju Magnúsdóttur sýslumanns prúða, Jónssonar, og var það hneykslismál mikið; dætur þeirra Sesselju voru: Anna átti Þorvald Rafnsson prests í Saurbæ, Þorvaldssonar, Guðlaug átti Þorlák í Tungu í Tálknafirði Bjarnason prests í Selárdal, Halldórssonar. Sesselja átti síðar Ísleif Eyjólfsson í Saurbæ á Kjalarnesi. Áður en síra Sigurður fór vestur, hefir hann átt son í Austfjörðum: Hjálm, og er sonur hans Sigurður Hjálmsson (d. 1704), en þaðan eru miklar ættir í Austfjörðum (Alþb. Ísl.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.