Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigurður Breiðfjörð

(4. mars 1798–21. júlí 1846)

Skáld.

Foreldrar: Eiríkur Sigurðsson í Rifgirðingum og kona hans Ingibjörg Bjarnadóttir í Mávahlíð, Bogasonar. Fór til Kh. 1814 og nam þar beykisiðn. Kom heim 1818 og var beykir á Ísafirði til 1822, í Rv. til 1825, í Vestmannaeyjum til 1828. Var síðan vestra (í Helgafellssveit), en í Flatey 1829–30 að beykisiðn, kenndi sund, stundaði sjóróðra og jafnvel málflutning, enda þókti fara það vel úr hendi.

Því var það, að frændur hans og vinir skutu fé saman og ætluðu honum að nema dönsk lög.

Í því skyni fór hann til Kh. í annað sinn haustið 1830. Eyddist honum brátt féð. Réðst þá beykir í konungsverzlun á Grænlandi og var þar 1831–4; fór þá til Kh. og síðan (sumarið 1834) til Stykkishólms. Var þar um tíma, en bjó síðan á Grímsstöðum í Breiðavík frá 1836.

Fluttist til Rv. 1842 og var þar til æviloka. Talinn iðjumaður, en manna örvastur á fé og veitull jafnan og gleðimaður. Byrjaði senmma að yrkja og varð með vinsælustu rímnaskáldum.

Prentaðar rímur eftir hann af: Tistram og Indíönu (1831), Svoldarbardaga (1833, 2. pr. 1880, 3. pr. 1908), Núma (1835, 2. pr. 1903, 3. pr. 1937, skrautprent), Aristómenes og Gorgi (1836), Fertram og Plató (1836, 2. pr. 1910), Jómsvíkingasögu (1836, 2. pr. 1912), Líkafróni (1843, 2. pr. 1907), Indriða ilbreið (1856), Víglundi og Ketilríði (1857, 2. pr. 1903), Gísla Súrssyni (1857, 2. pr. 1908), Gústaf Adólf og Valvesi (1857), Gunnari á Hlíðarenda (1860), Ásmundi og Rósu (1884), Emmu (með Fertram og Plató, 2. pr. 1910). Önnur rit hans pr.: Frá Grænlandi (1836, 2. pr. 1912), Ljóðasmámunir (1836, 2. pr. 1912), Ljóðasmámunir, 2. ársfl. (1839, 2. pr. 1911), Nokkurir smákviðlingar (1862), Ljóðabréf til Teits Finnbogasonar (1880), Úrvalsrit (að umsjá Einars Benediktssonar, Kh. 1894). Auk þessa eru í handritum í Lbs. rímur eftir hann og fjöldi kvæða, margt í ehdr.

Þyrfti rannsóknar, einnig hið prentaða.

Kona 1 (1826): Sigríður Nikulásdóttir. Hvarf hann frá henni 1828, enda átti hún skömmu síðar barn með öðrum.

Kona 2 (1837): Kristín Illugadóttir hreppstjóra að Einarslóni, Bjarnasonar.

Sonur þeirra: Jens Baggesen fór í siglingar.

Af hinu síðara hjónabandi hlutust málaferli, enda var Sigurður ekki skilinn að lögum við f.k. sína, þótt sókt hefði um skilnað. Slapp hann þó furðuvel frá dómi, enda málsbætur miklar (Ævim. eftir Jón Borgfirðing, Rv. 1878; Úrvalsrit, Kh. 1894: Sunnanfari IV; SGrBf.: Sigurður Breiðfjörð, Rv. 1912; Oxfl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.