Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sighvatur Sturluson

(1170–21. ágúst 1238)

Goðorðsmaður, síðast á Grund í Eyjafirði, skáld.

Foreldrar: Sturla Þórðarson (sjá um hann) í Hvammi í Hvammssveit og s.k. hans Guðný Böðvarsdóttir í Görðum, Þórðarsonar. Albræður: Þórður á Stað, Snorri lögsögumaður, skáld og sagnaritari.

Kona: Halldóra Tumadóttir (Kolbeinssonar, af Ásbirningakyni, systir Kolbeins og Arnórs).

Börn þeirra: Tumi, Sturla, Kolbeinn, Þórður kakali, Markús, Þórður krókur, Tumi, Steinvör átti Hálfdan að Keldum Sæmundsson í Odda, Jónssonar. Laundætur Sighvats: Valgerður átti Bárð Hjörleifsson að Ballará og víðar, (með Helgu Bjarnadóttur): Sigríður átti Styrmi Þórisson úr Bjarnarstaðahlíð. Bjó að Staðarhóli fyrst skamma stund, í Hjarðarholti, að Sauðafelli, á Möðruvöllum í Hörgárdal og loks á Grund. Hafði hann fengið til varðveizlu fyrir Tuma, son sinn, goðorð þau, er honum höfðu verið gefin og átt hafði Guðmundur hinn dýri. Var Sighvatur höfðingi mikill og völd hans því meiri, er á leið, enda hefur hann verið vinsæll maður; hefir til þess dregið meðal annars glaðlyndi hans, glettur og kímni. Féll með Sturlu, syni sínum, á Örlygsstöðum fyrir Kolbeini unga Arnórssyni (systursyni konu hans) og Gizuri Þorvaldssyni (Sturl. (þar eru 2 erindi eftir hann); Bps. bmf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.