Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigfús Stefánsson

(4. maí 1823–í mars 1910)

Hreppstjóri.

Foreldrar: Síra Stefán Árnason á Valþjófsstöðum og kona hans Sigríður Vigfúsdóttir prests sst., Ormssonar. Stýrði búi föður síns í nokkur ár, bjó frá 1851 í Víðivallagerði, en að Skriðuklaustri 1863–81, bætti vel þá jörð og hýsti. Var búskapur hans þá með svo miklum blóma, að hann var um tíma einn af 12 búöndum landsins, er mest lausafé töldu fram til tíundar, enda hinn mesti atorkumaður.

Kona (1845): Jóhanna (d.1891) Jörgensdóttir læknis Kjerúlfs að Brekku í Fljótsdal.

Börn þeirra: Síra Stefán að Hofi í Álptafirði, Arnbjörg átti Halldór dbrm. Benediktsson að Skriðuklaustri, Páll á Melum, Sigríður átti fyrr Eirík Andrésson Kjerúlf að Skriðuklaustri, síðar Sölva hreppstjóra Vigfússon á Arnheiðarstöðum, Eiríkur verzlm. í Borgarfirði austur, Björg giftist í Vesturheimi (Óð inn V; Br7.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.