Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Sigfús Jónsson

(12. okt. 1814 [21. okt. 1815, Vita]–9. mars 1876)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Þorsteinsson í Reykjahlíð (síðast í Kirkjubæ) og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir að Ljósavatni, Þorlákssonar. F. á Húsavík, Lærði fyrst hjá Daníel Jónssyni (síðar presti í Ögurþingum) og Sveini Níelssyni (síðar presti á Staðastað), tekinn í efra bekk Bessastaðaskóla 1835, stúdent 1839 (98 st.). Stundaði síðan kennslu (hjá Birni sýslumanni Blöndal í Rv., hjá Stefáni landfógeta Gunnlaugssyni, hjá síra Hannesi Stephensen að Hólmi, og að Undornfelli). Vígðist 14. júní 1846 aðstoðarprestur síra Sigurðar Sigurðssonar að Auðkúlu, fekk Tjörn á Vatnsnesi 13. júlí 1846, fluttist þangað vorið 1847, Undornféll 13. sept. 1872, fluttist þangað vorið eftir og hélt til æviloka. Hafði liprar gáfur, var heppinn læknir og valmenni.

Kona (8. júlí 1846): Sigríður Oddný (f. 15. okt. 1824, d. 23. jan. 1889) Björnsdóttir sýslumanns Blöndals í Hvammi í Vatnsdal.

Börn þeirra, sem upp komust: Guðrún átti Björn sundkennara Blöndal (Lúðvíksson), Björn alþm. að Kornsá, Þuríður, Sigríður s. k. Ingimundar Jakobssonar í Kirkjuhvammi, Jón dó 1905 ókv. og bl., Pétur Sigurgeir, Benedikt smiður í Rv., Magnús Th. (þ. e. Þorlákur) Blöndal útgerðarmaður og alþm. í Rv., Ástgerður Ágústa átti Sighvat bankastjóra Bjarnason (Vitæ ord. 1846; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.