Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Rafn Ólafsson

(– – 1691)

Prestur.

Foreldrar: Síra Ólafur Böðvarsson í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og kona hans Guðríður Rafnsdóttir prests sst., Þorvaldssonar. Vígðist 26. okt. 1656 að Stað í Grindavík. Komst í deilu við landfógeta og byskup, af því að hann vildi ekki halda kóngsbænadag, sem lögboðinn var 27. mars 1686, o. fl., dæmdur frá prestskap á prestastefnu á alþingi 4. júlí 1687, en skyldi þó að úrskurði byskups og nokkurra presta 8. s. m. njóta prestsetursins til næstu fardaga.

Síðar varð meira þras í milli, með því að síra Rafn vildi ekki láta af hendi kirkjulykil, ekki heldur við byskup sjálfan í visitazíu 13. sept. 1687. Fór hann vorið 1688 að Hlíð í Gnúpverjahreppi. Ókv. og bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.