Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Oddur Sverrisson

(1763–23. okt. 1827)

Prestur.

Foreldrar: Sverrir Jónsson í Raufarfelli undir Eyjafjöllum og kona hans Sigríður Erlingsdóttir að Raufarfelli, Einarssonar. Lærði 2 vetur hjá síra Hálfdani Gíslasyni að Eyvindarhólum, 1 vetur hjá síra Hílaríusi Illugasyni að Mosfelli, tekinn í Skálholtsskóla 1780, stúdent 26. apr. 1784, með heldur góðum vitnisburði, var síðan 3 ár hjá foreldrum sínum, varð djákn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 13. dec. 1786, fekk Steinsholt 13. febr. 1787, vígðist 10. júní s. á., fluttist að Stóra Núpi 1790, er þar var sett prestsetur (konungsbréf 10. júlí 1789) og hélt til æviloka. Hann var búhöldur mikill og hraustmenni.

Kona: Gróa (f. 1765, d. 26. dec. 1820) Jónsdóttir að Steinum undir Eyjafjöllum, Þórissonar.

Börn þeirra: Guðrún átti Ólaf Höskuldsson í Haga, síra Hjörleifur aðstoðarprestur í Seli í Grímsnesi (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.