Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Oddur Sigurðsson

(1681–6. ág. 1741)

Lögmaður.

Foreldrar: Síra Sigurður Sigurðsson á Staðastað og kona hans Sigríður Hákonardóttir sýslumanns í Bræðratungu, Gíslasonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1695, stúdent í apr. 1697, fór utan 1698, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 29. sept. s. á., varð attestatus í guðfræði, kom heim 1700 og bjó með móður sinni að Rauðamel, fór aftur utan 1706, varð varalögmaður norðan og vestan 13. maí 1707, fekk þá og umboð stiftamtmanns 16. maí 1708, en Páll landfógeti Beyer jafnframt umboðsmaður amtmanns (þeir nefndir fulltrúarnir, „þeir fullMmektugu“), var það til 1718, fekk hálfa Snæfellsnessýslu 23. júlí s. á., setti þá bú á Narfeyri, hélt þeim lénum til 1721. Eftir það hófust smám saman hin miklu málaferli hans við flesta 19 meira háttar menn á Íslandi, fyrst Jón byskup Vídalín, Pál lögmann Vídalín o. fl., síðan Fuhrmann amtmann, Jóhann sýslumann Gottrup o. fl.; tók við lögmannsdæmi 1715 (eftir samningi 1714), vikið frá embætti 1724, dæmdur frá æru, embætti og eignum 21. júlí 1725 (dómurinn staðfestur í hæstarétti 23. apr. 1727), reyndi að fá það lagað, en tókst loks að fá æruna aftur með konungsbréfi 3. mars 1730, en embætti ekki. Bjó að Ingjaldshóli frá 1720, síðan að Rauðamel syðra, en síðast (frá 1734) að Leirá, og andaðist þar ókv. og bl., en hafði verið lofaður dóttur Guðmundar ríka á Narfeyri og í Brokey (hún andaðist ung) og átti von erfða eftir hann, en vinátta þeirra snerist upp í megna óvináttu, og gaf Guðmundur Fuhrmann amtmanni eignir sínar. Trúlofaðist síðar Sigríði Þorsteinsdóttur að Skarði, Þórðarsonar (hjúskaparleyfi vegna þremenningsfrændsemi 2. mars 1709, þótt hún sé ekki nefnd), en ekkert varð úr þeim ráðahag, og giftist hún aldrei. Í þjóðskjalasafni er þingbók hans í Snæfellsnessýslu og bréfabækur. Hann var ofstopamaður og þó trygglyndur og brjóstgóður, mikilúðlegur og sukksamur, en lét þó eftir sig eignir, enda hafði hann erft mjög mikið og var hagsýnn í aðra röndina. Talinn vel viti borinn, er hann gætti sín; til er eftir hann latínukvæði framan við „Trifolium“ Þormóðar Torfasonar, Kh. 1707 (Saga Ísl. VI; Safn II; BB. Sýsl.; JJ. Aðils: Oddur Sigurðsson, Bessast. 1902; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.